Grunnþættir

Grunnþættir

Sú menntastefna sem birt er í aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar sem allir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla:

 

·         læsi

·         sjálfbærni

·         heilbrigði og velferð

·         lýðræði og mannréttindi

·         jafnrétti

·         sköpun

 

Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. 

 

Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og náms­sviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér. Námssvið geta verið sérhæfing í viðfangsefnum skólastarfs þvert á námsgreinar og skólastig. 

 

Grunnþættir menntunar eru settir fram sem sex þættir. Þeir tengjast þó innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Með því að hugsa út frá þeim má skapa meiri heildarsýn um skólastarfið. Þeir byggjast á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Þeir eru einnig byggðir á því að virkt lýðræði þrífist aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti.

 

Þótt grunnþættirnir séu samtvinnaðir hefur hver þeirra sín sérkenni. Þá má þannig nota til að halda utan um markmið skólakerfisins í heild og sérstakar áherslur hvers skóla eða skólastigs. Grunnþættirnir eru þó ekki nýtt flokkunarkerfi námsþátta heldur skilgreindir til þess að skerpa markmið skólanna og tengja þau saman. Flest atriði skólastarfs má fella undir fleiri en einn grunnþátt og mörg þeirra undir hvern þeirra sem er. 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica