Saga skólans

Saga Kópavogsskóla er saga Kópavogs

Kennsla hófst í fyrsta áfanga Kópavogsskóla miðvikudaginn 12. janúar 1949. Nemendur voru 100 talsins og skiptust í 6 bekkjardeildir. Stofurnar voru hins vegar aðeins þrjár tilbúnar fyrir kennslu svo eldri nemendur voru í skólanum fyrir hádegi en þeir yngri eftir hádegi. Á næstu fjórum árum rúmlega þrefaldaðist nemendafjöldinn og stofufjöldinn tvöfaldaðist.  Kópavogsskóli er elsti skóli Kópavogs og hét í upphafi Barnaskóli Kópavogs, síðar Barna- og unglingaskóli Kópavogs, því næst Kópavogsskólinn og fékk svo núverandi heiti, Kópavogsskóli.

Það er við hæfi að  gera sögu skólans nokkuð góð skil hér því saga hans er samofin sögu bæjarfélags sem á stuttum tíma þróaðist frá því að vera hjáleiga annars sveitarfélags, Seltjarnarneshrepps hins forna, í að verða sérstakt bæjarfélag. Frá því að vera hrjóstrugt holt með nokkur hús á stangli, flest upphaflega reist sem sumarhús, en bújarðir í dölunum sitt hvoru megin Digraneshálsins, í það að vera næst stærsta sveitarfélag landsins.

Árið 1945 var 521 íbúi í Kópavogi. Að mestu leyti var það ungt, framtakssamt fólk sem hafði með dugnaði komið yfir sig eigin þaki. Þetta fólk vildi fljótlega fá menntun á staðnum fyrir börn sín og haustið 1945 var stofnaður skóli sem var til húsa að Hlíðarvegi 9. Húsið var klætt svörtum tjörupappa og skólinn var í daglegu tali nefndur Svartiskóli. Aðeins störfuðu tveir kennarar við þann skóla þeir Gunnar Guðmundsson, sem síðar varð skólastjóri Kársnesskóla, og Guðmundur Eggertsson sem stýrði skólanum og var fyrsti skólastjóri Kópavogsskólans. Skólinn var næst staðsettur að Digranesvegi 2, síðan að Kársnesbraut 32 og flutti síðan í fyrsta hluta núverandi húsnæðis.

Byggingarsaga hússins ber augljós merki mikillar barnafjölgunar í sveitarfélaginu því skólahúsnæðið var byggt í mörgum áföngum:

1. áfangi var tekinn í notkun um áramót ´48-´49.  6 kennslustofur + handavinnustofa og skólaeldhús + 3 herbergi.

2. áfangi  um áramótin ´54-´55  - 4 kennslustofur.

3. áfangi í mars  1960  - íþróttahús.

4. áfangi  haustið 1964 - smíðastofa.

5. áfangi, haustið 1968 -  2 kennslustofur og anddyri.

6. áfangi, haustið 1972 - 4 kennslustofur.

7. áfangi, haustið 1975 - stjórnunarálma og bókasafn.

8. áfangi, haustið 1996 - 6 kennslustofur + samkomusalur.

Þegar byggingu fyrsta áfanga skólahússins var lokið hýsti hann á fyrstu árunum einnig ýmsar stofnanir sveitarfélagsins og var samkomuhús þess. Þar voru haldnir almennir borgarafundir og dansleikir auk þess sem guðsþjónustur fóru þar fram allt til þess tíma að Kópavogskirkja var vígð í desember 1962. Leikfélag Kópavogs hélt ennfremur sínar fyrstu leiksýningar í Kópavogsskóla.   Hér voru um tíma skrifstofur sveitarfélagsins og áhaldageymsla. Héraðslæknir hafði hér  aðstöðu og ýmsar aðrar stofnanir hófu starfsemi sína í þessu húsnæði s.s. Bókasafn Kópavogs, Kársnesskóli, Gagnfræðaskóli Kópavogs, Digranesskóli og Menntaskólinn í Kópavogi.

Skólastjórar Kópavogsskóla hafa verið Guðmundur Eggertsson (1948-1949), Frímann Jónasson (1949-1964), Magnús Bæringur Kristinsson (1964-1977), Óli Kr. Jónsson (1977-1990), Ólafur Guðmundsson (1990-2006). Núverandi skólastjóri, Guðmundur Ó. Ásmundsson,  tók við stjórn Kópavogsskóla 1. ágúst 2006.

Kópavogsskóli hefur oft verið í fararbroddi í þróun skólastarfs. Góðir stjórnendur og  ákveðin festa í kennaraliði sem var fúst  til endur- og símenntunar hefur átt sinn hlut í því.  Listsköpun var í heiðri höfð frá upphafi og á sjöunda áratug var brotin  upp hefðbundin verkleg kennsla þar sem drengir fóru í smíðakennslu og stúlkur í handavinnu (sauma, prjón og hekl)  með því að drengir og stúlkur fóru til skiptis í smíði og handavinnu. Virk sköpun fléttaðist snemma inn í ýmsar námsgreinar s.s. átthagafræði. Alltaf hefur verið gert mikið úr árshátíðum og undirbúningi þeirra og settar upp vandaðar sýningar á ýmsum stöðum þar á meðal í Félagsheimili Kópavogs.

Kópavogsskóli varð reyklaus stofnun 1. september 1993 og sýndi þar gott fordæmi. Samstarf foreldra og skóla varð snemma til fyrirmyndar. Sama er að segja um innleiðingu á matskerfi fyrir innra starf skólans en kerfið Siðferðileg reikningsskil varð virkt 1997 eftir tveggja ára undirbúning m.a. með námsferðum starfsfólks til Danmerkur. Kópavogskóli fékk ásamt tveimur öðrum skólum bæjarins, fjárhagslegt sjálfstæði 1997 og fékk þar með fulla stjórn á innri málefnum. Eftir efnahagserfiðleika síðustu ára hefur það gengið til baka að hluta. 

Á sextugsafmæli skólans árið 2009 var gefið út afmælisrit með ýmsum fróðleik um upphafsár skólans og þá starfsemi sem fram fór í húsinu og fullnýtt var frá morgni til kvölds. Fyrir þá sem hafa áhuga á frekari upplýsingum og fróðleik er hér tengill á Afmælisritið.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica