Stuðnings- og sérkennsla

Stuðnings- og sérkennsla

Samkvæmt grunnskólalögum eiga allir nemendur rétt á kennslu við sitt hæfi. Til að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda er skipulagi sérkennslunnar í skólanum þannig háttað að gerðar eru sérstakar námsáætlanir fyrir hvern nemanda eða nemendahóp sem hlýtur stuðning. Í þessum námsáætlunum koma fram markmið námsins og tilhögun þess. 

Markmið sérkennslunnar eru m.a.: 

 • að mæta þörfum nemandans 
 • að styrkja sjálfsmynd og sjálfstæði nemandans 
 • að efla hæfni nemenda til félagslegra samskipta 
 • að auka færni nemenda í ákveðnum námsgreinum

Leiðir: Fyrirkomulag sérkennslu getur verið með ýmsu móti. Reynt er að koma aðstoðinni sem mest inn í bekkjarheildina ef mögulegt er þannig að heildarnám raskist sem minnst. Stundum reynist nauðsynlegt að taka nemandann út úr kennslustund til frekari þjálfunar. Sérhæfni sérkennarans beinist að því að aðlaga námið að þörfum hvers og eins. 

Mat: Í upphafi og við lok stuðningstímabils er lagt mat á stöðu nemenda. Matið byggir m.a. á greiningu sérkennara, ef hún er til, en einnig er stuðst við upplýsingar frá kennurum og foreldrum. Leitað er eftir stuðningi og fræðslu hjá fagaðilum utan eða innan skólans ef með þarf til að tryggja sem best hag nemenda. 

Lestrarþjálfun

Lestrarstuðningur byggir  á mati umsjónarkennara og/eða lestrargreiningu. Um er að ræða tímabundin námskeið til að örva og hvetja barnið til frekara lestrarnáms.

Snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf í kjölfarið er mikilvæg til að sem fyrst sé hægt að bregðast við námslegum, félagslegum og sálrænum vanda og skipuleggja kennslu og stuðning, með starfsfólki skóla, þannig að það hæfi hverjum nemanda í skóla án aðgreiningar. 

Í Kópavogsskóla er notað Leið til læsis (LtL) sem er  yfirgripsmikið stuðningskerfi í lestrarkennslu ætlað lestrarkennurum frá yngsta stigi grunnskólans og upp á unglingastig. Markmið þessarar nálgunar er að gefa kennurum kost á að fylgjast með lestrarþróun hvers nemanda frá upphafi lestrarnáms og til loka grunnskólagöngu. Í kjölfarið gefur stuðningskerfið leiðbeiningar um hvort þörf sé á að endurskoða markmið og leiðir og laga kennsluna betur að þörfum hvers nemanda.  Þegar um alvarleg frávik er að ræða er unnið með þau undir handleiðslu sérkennara. 

Í 1. bekk er lagt fyrir hóppróf, skimunarpróf  í október.  Niðurstöður prófsins eru sendar til Námsmatsstofnunar, þær eru miðaðar við færni barna á öllu landinu. Ólíkt öðrum lesskimunarprófum sem völ er á hér á landi lúta niðurstöður prófsins að þremur aðskildum færniþáttum sem leggja grunn að lestrarnáminu, en það eru:

 • Málskilningur og orðaforði
 • Bókstafa og hljóðaþekking
 • Hljóðkerfis- og hljóðavitund

Eftirfylgnipróf er tekið í janúar í 1. bekk og tvisvar á ári (í október og janúar) í 2. 3. og 4. bekk. Eftirfylgdarpróf gera bekkjarkennara kleift að meta framfarir í lestrarnámi og þá um leið árangur kennslunnar. Bæði eftirfylgdarpróf LtL gera kleift að meta þróun lestrarfærninnar hjá hverjum og einum nemanda fyrstu 4 ár skólagöngunnar.

Góð handbók fyrir kennara fylgir  Leið til læsis. Leiðbeiningar og hugmyndir um kennslu eru í henni. Þær byggja á raunprófuðum kennsluaðferðum í anda hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun við lestrarerfiðleikum. Ennfremur eru undir sama hatti aðgengileg stöðupróf Leið til læsis fyrir nemendur í 4-9. bekk sem gerir kennurum kleift að fylgja nemendum eftir alveg upp á unglingastig. Sjá nánar á www.namsmat.is


Einstaklingsmiðuð lestrarkennsla í 1. – 7. bekk

Þá er átt við 

 • Kennslu sem er hæfilega krefjandi, þ.e. sem hjálpar börnum til að ráða við verkefni sem eru rétt ofar getu þeirra
 • Kennslu sem beinist að því að kenna ákveðnum hópi barna með beinum hætti í hæfilega langan tíma.  Hvað kennt er hverju sinni og í hve langan tíma byggist á mati á þörfum nemenda og mati á árangri kennslunnar
 • Kennslu sem styðst við þróunarferli lesturs og gerir ráð fyrir að nemendur þurfi kennslu í mismunandi þáttum hans, þ.e.o í hljóðkerfisvitund og  stafaþekkingu.
  • Hljóðkerfisvitund er tilfinning og næmi barnsins fyrir uppbyggingu  tungumálsins; hvernig hægt er að greina talmál niður í smærri hljóðeiningar og hvernig  vinna má með einingarnar á mismunandi vegu. Góð hljóðkerfisvitund felst í því að hafa góða tilfinningu fyrir öllum  hljóðeiningum málsins, geta t.d.  sleppt úr, bætt við og/eða skipt um hljóð eða hljóðeiningar í orðum.
  • í umskráningu,  ritun  barnið skrifar stuttar setningar eftir upplestri eða bók á hverjum degi. Umskráning vísar til  þess þegar einstaklingur breytir bókstöfum í hljóð. Samtengjandi ferli við lestur og sundurgreinandi ferli við stafsetningu styðja því hvort annað og efla hljóðkerfisvitund og sjónminni á orðin.
  • í lesfimi (leshraða) lestur og endurlestur, lesa stutt í einu, en oftar það sama til að þjálfa lesfimi og sjálfvirkni.  Nemendur með góða lesfimi hafa góðan sjónrænan orðaforða.
  • við öflun orðaforða.  Lykilorð eru skoðuð. Það eru orð sem skipta máli svo nemendur skilji lesefni sem unnið er með hverju sinni. Gagnleg orð. Orð sem koma oft fyrir í mismunandi lesefni og allir þurfa að kunna. Forsenda lesskilnings er góður orðaforði og málskilningur sem vísar til skilnings og þekkingar á  mæltu máli og uppbyggingu þess
  • í lesskilningi (en góð lesfimi er forsenda þess að   nemendur  nái að skilja flókið lesefni)       
   • - í ritun

Fingrafimi 1 og 2 (á vef Námsgagnastofnunnar) er æfð einu sinni í viku. Nemendur með dyslexíu glíma margir hverjir við ritunarvanda en virðast ekki eiga í vandræðum með að læra fingrasetningu á tölvunni. Þá kröfu verður að gera til nemandans að hann tileinki sér góða færni í vélritun og noti rétta fingrasetningu frá upphafi því gagnsemi tölvunar takmarkast verulega ef tíminn fer í að leita að stöfunum á lyklaborðinu. Hvatningin til þess kemur af innri þörf þegar farið er að nota tölvuna. Fingrasetning reynir hvorki á veikleika notandans í ritun, né sjónrænt eða hljóðrænt minni heldur hreyfiskyn og að muna hreyfingar fingranna.

LOGOS

LOGOS er nýtt greiningartæki  til að greina dyslexiu og aðra lestrarerfiðleika hjá börnum, unglingum og fullorðnum. Greiningin fer fram í skólanum, greinandi er Elín G. sérkennari.

Greiningin er ætluð 1) nemendum í 3. – 5. bekk og 2)  6.-10. bekk og fullorðna. Foreldrar, kennarar eða sérkennari getur beðið um greiningu fyrir barn. Greining fer fram með samþykki foreldris og er kallað til fundar ef niðurstaðan er dyslexía. Skýrsla er afhent foreldri og rætt er um þá þjónustu sem börn fá í kjölfarið. Ég minni foreldra á að geyma þessa skýrslu því nemendur geta lagt hana fram í framhaldsskóla. Framhaldsskólar þjóna börnum með dyslexíu misvel og er gott að kynna sér það þegar sótt er um framhaldsskóla. 

Þjónusta sem börn fá í kjölfar greiningar, ef þau njóta hennar ekki þegar, er í flestum tilvikum

 • • Aukin lestrarþjálfun þar sem unnið er í litlum hópum. 
 • • Í nokkrum tilfellum þarf að gera einstaklingsnámskrá og laga námið að barninu.
 • • barnið / unglingurinn velur hvort  hann vill lesa upphátt fyrir bekkinn í öllum námsgreinum. Við reynum með því móti að komast hjá kvíða sem oft vill fylgja börnum með dyslexíu.
 • • lengri tími við próftöku.
 • • munnleg próf , þar sem við á.
 • • ef heimanám tekur  óhóflega langan tíma er sjálfsagt að tala við umsjónarkennara og fá afslátt af heimanámi. 
 • • nemendur fá að skrifa verkefni í auknum mæli á tölvur og að nota tölvur til að vinna verkefni. Forritið Foxit Reader er notað þegar um sértæka skriftarerfiðleika er að ræða.
 • • Nota leiðréttingarpúka við vinnu. Púkinn leiðréttir skrifaðan texta í tölvu.
 • • ,,EasyTutor” er forrit fyrir lesblinda tölvunotendur sem getur gagnast á öllum skólastigum. Það les upphátt og yfirstrikar texta í Word skjölum, vefsíðum og öðrum skjölum sem hjálpa til við lestur. Íslenska röddin er kölluð Ragga. Hægt er að tengja forritið við skanna og lesa beint prentaðan texta. Þar má finna leiðbeiningar um forritið og notkun þess. Nánari upplýsingar um ,,EasyTutor"  hjá Örtækni.    Frekari upplýsingar um talgervla er á Lesvefnum.
 • • Nemendur og forráðamenn þeirra geta sótt um upplestur á samræmdum prófum í íslensku, ensku og stærðfræði. Hversu stóran hluta af prófinu má lesa er ákveðið fyrirfram af Námsmatsstofnun.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica