Eineltisáætlun Kópavogsskóla

Tilkynna grun um einelti

Í Kópavogsskóla er einelti ekki liðið og við viljum að öllum nemendum líði vel í skólanum

Skólinn starfar samkvæmt aðferðum Uppeldis til ábyrgðar þar sem lögð er sérstök áhersla á að kenna nemendum góð lífsgildi í samskiptum og öllu starfi. Í þessari stefnu felst að unnið er með nemanda að lausn vandamála, unnið að því að auka innri stjórn og sjálfsaga nemandans og að styrkja hann þannig að hann sé í sátt við sig og aðra. Við upphaf skólaárs og með reglulegu millibili eru börn og starfsfólk upplýst um samskiptastefnu og eineltisáætlun skólans. Komi fram vísbendingar eða tilkynningar um einelti er það skylda skólans að bregðast við. Í þessari áætlun er farið yfir hvernig skólinn hagar forvörnum sínum, hvernig brugðist er við komi upp grunur eða tilkynning um einelti og einnig góð ráð fyrir foreldra.

Skilgreining á einelti

Einelti verður þegar einstaklingur lendir reglubundið og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti, andlegu/líkamlegu, eða útilokun af hendi einstaklings eða hóps.


Einelti nær stundum yfir langt tímabil og gerir líf þolandans mjög erfitt. Ójafnvægi er í styrkleikasambandi milli gerenda og þolenda. Sá sem verður fyrir eineltinu ver sig ekki alltaf sjálfur heldur lætur það yfir sig ganga. Einnig getur rafrænt einelti átt sér stað. Er þá verið að tala um þegar níðst er á viðkomandi með smáskilaboðum og á netinu t.d. á samskiptasíðum líkt og Facebook og Formspring.me. 
 
Mikilvægt er að hafa í huga að einstakur atburður telst ekki einelti.
 
Andlegt einelti/ofbeldi felst t.d. í því að:
 
 • Skilja einhvern útundan eða setja einhvern út í kuldann.
 • Tala illa um einhvern, ógna eða hæða með orðum, niðrandi og særandi athugasemdum um viðkomandi.
 • Skemma eða eyðileggja fyrir einhverjum reglubundið, föt og annað.
 
Líkamlegt einelti felst t.d. í því að 
 
 • Ráðast á, hrinda, sparka, slá eða klípa einhvern.
 • Halda einhverjum föstum eða loka einhvern inni gegn vilja hans.

Hvað á að gera þegar vart verður við einelti?

Foreldrar og nemendur geta haft samband við námsráðgjafa, umsjónarkennara eða skólastjórnendur.

Forvörn gegn einelti

Bekkjarsáttmálar eru unnir í hverjum bekk strax að hausti í samstarfi umsjónarkennara og nemenda. Fjallað er sérstaklega um einelti og annað ofbeldi og mikilvægi þess að allir séu á varðbergi til þess að fyrirbyggja og stöðva það. Mikilvægt er að í bekkjarsáttmála sé að finna ákvæði um að einelti sé ekki liðið.

Umsjónarkennarar verða að vera á varðbergi gagnvart einelti og neikvæðum samskiptum og vinna að góðum bekkjar- og skólabrag með nemendum sínum, t.d. með fræðslu, umræðum og verkefnavinnu. 

Tengsla- og eineltiskannanir eru lagðar fyrir í skólanum á hverju hausti og í framhaldi af því fer af stað vinna í þeim eineltismálum sem þar birtast. 

Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem í eiga sæti námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og fulltrúi skólastjóra. Auk þeirra taka sæti í teyminu umsjónarkennarar þess bekkjar/árgangs sem einelti kemur upp í hverju sinni. Hlutverk eineltisteymisins er að halda utan um og stýra vinnslu þeirra eineltismála sem upp koma í skólanum. Enn fremur er teyminu ætlað að vera kennurum til ráðgjafar varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir hvað varðar einelti. Sálfræðingur skólans vinnur oft einnig með teyminu að úrlausn eineltismála.

Námsráðgjafi leiðir starf eineltisteymis og skráir fundargerðir. Teymið kemur saman á hverju hausti og fer yfir eineltisáætlun skólans. Í framhaldi af því er áætlunin kynnt foreldrum á kynningarfundum og farið inn í alla bekki skólans. Eineltisáætlunina er ávallt að finna á heimasíðu skólans undir merkjum forvarnaráætlunar.

Nemendaverndarráð er upplýst um vinnu eineltisteymisins og er því til ráðgjafar. 

Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um einelti

Áætlun er alltaf unnin í fullu samráði við viðkomandi foreldra.

 

1. þrep - Athugun

 

Ábending berst

 1. Námsráðgjafi kallar foreldra þolanda á fund og fer yfir eineltistilkynninguna. Þeir eru upplýstir um hvernig málið verður unnið.
 2. Námsráðgjafi kallar eineltisteymi, ásamt viðkomandi umsjónarkennurum, saman á fund. Ákveðnar eru aðgerðir til að tryggja strax öryggi þolanda.
 3. Á þessum fundi er gerð áætlun um athugun sem skal fara fram í þeim árgangi þar sem um grun um einelti er að ræða. Athugun þessi felur í sér að umsjónarkennarar taka einstaklingsviðtöl við 3-5 börn í hvorum bekk sem talin eru geta gefið upplýsingar sem varpa ljósi á ástandið í bekkjunum.
 4. Á sama tíma aflar námsráðgjafi upplýsinga hjá stuðningsfulltrúum, skólaliðum, starfsfólki í Dægradvölinni, félagsmiðstöðinni Kjarnanum eða öðrum kennurum ef það er talið geta varpað frekara ljósi á málið.
 5. Ef þörf er talin á er lögð tengslakönnun fyrir bekkina.
 6. Þessi athugun skal ekki taka lengri tíma en eina viku.
 7. Nemendaverndarráð er upplýst um að vinnsla í eineltismáli sé hafin.
 

2. þrep - Úrvinnsla

 
Að þessari athugun lokinni kemur eineltisteymið saman á ný og fer yfir niðurstöður. Ef í ljós kemur að um einelti er að ræða eru ákveðin næstu skref.
 
 1. Ákvarðaðir eru meintir þolendur og gerendur og markmið sett.  Teymið skiptir með sér verkum.
 2. Foreldrar gerenda eru boðaðir á fund hjá námsráðgjafa sem fer yfir skriflega tilkynningu og lýsingu á eineltinu.  Foreldrar þolanda eru upplýstir um framvindu málsins.
 3. Allir foreldrar í árganginum fá upplýsingar að eineltismál hafi komið upp í árganginum og að vinna skv. eineltisáætlun skólans sé komin í gang.  Meta skal í samráði við þolanda og foreldra hans hvort nemendur árgangsins fái einnig þessar upplýsingar og hvort nafn þolanda sé gefið upp.
 4. Námsráðgjafi tekur einstaklingsviðtöl við gerendur og þolendur þrisvar sinnum með viku og svo tveggja vikna millibili.
 5. Í þriðju vikunni hittast þolendur og gerendur á fundi hjá námsráðgjafa ef það er talið henta framgangi málsins.  Foreldrum er ávallt boðið að vera viðstaddir þessi viðtöl.
 6. Þolanda er boðið upp á sjálfstyrkingarviðtöl hjá námsráðgjafa í samráði við foreldra.
 7. Gerenda er boðið upp á sjálfstyrkingarviðtöl hjá námsráðgjafa í samráði við foreldra.
 8. Til greina kemur að námsráðgjafi ræði við alla nemendur árgangsins í litlum hópum (3-4) en þar væri skoðuð staða hvers og eins í eineltinu og hvað þeir geta lagt af mörkum til að laga ástandið.
 9. Ákveðinn rammi og viðurlög eru sett upp gagnvart óviðunandi hegðun og eru allir kennarar og stuðningsfulltrúar í árgangi upplýstir um það sem í gangi er.
 10. Skólinn endurmetur hvort betrumbæta þurfi almennan skólabrag og stuðla að jákvæðari menningu með sérstökum aðgerðum, sérstaklega ef eineltistilkynningar eru tíðar.
 11. Umsjónarkennarar vinna með bekkjunum að bættum samskiptum. Krakkarnir læra um einelti, hvernig það birtist, hvaða aðferðum er beitt og hvaða tjóni það getur valdið. Umræður, hlutverkaleikir, myndbönd o.fl. er nýtt og krökkunum eru kenndar einfaldar leiðir til að bregðast við einelti verði þeir varir við það. Reynt er að efla færni nemenda til að velja rétta afstöðu og hjálpa þeim sem fyrir eineltinu verða. Námsráðgjafi, hjúkrunarfærðingur og sálfræðingur skólans taka þátt í þessu starfi ef það þykir henta.
 12. Þessi vinna skal ekki að taka meiri tíma en einn mánuð.
 

3. þrep - Eftirfylgni

 
 1. Námsráðgjafi hittir þolenda og geranda u.þ.b. mánuði eftir að vinnu lýkur og fylgir árangri eftir.  Foreldrar geranda eru upplýstir um árangur.
 2. Námsráðgjafi kallar teymið saman á fund. Farið er yfir hvernig gengið hefur og árangur skoðaður. Metið er hvort markmið hafi náðst og ákvarðanir teknar um framhaldið.
 3. Máli er lokað formlega í samráði við foreldra þolanda og geranda.
 4. Námsráðgjafi sendir skilaboð til allra aðila málsins um að því sé lokið. Fulltrúi skólastjóra sendir samsvarandi skilaboð til foreldra í árganginum, þar sem þeir eru upplýstir um að vinnu skv. eineltisáætlun sé lokið og hvernig árangur náðist. Nemendur eru einnig upplýstir um árangurinn hafi þeir fengið vitneskju um málið skv. 2. þrepi 3. lið.
 5. Nemendaverndarráð er upplýst um gang mála.
 6. Umsjónarkennarar eru áfram vakandi yfir þolendum og gerendum og fylgjast með samskiptunum í bekknum.
 7. Eftirfylgni með geranda/gerendum heldur áfram í 4-6 mánuði.  Námsráðgjafi fundar með geranda og eftir atvikum foreldrum og hann fær aðstoð með sinn persónulega vanda. Einnig er í september tekin staðan hjá þeim sem voru þolendur í eineltismálum veturinn áður.
 
Áætlunin er sveigjanleg þannig að teymið metur hverju sinni hvort ástæða sé til að bregða út af henni á einhvern hátt.
 
Sé það upplifun foreldra að þeir hafi ekki fengið hlustun skólayfirvalda vegna þess eineltis sem barn þeirra hefur orðið fyrir eða þeir telji að málinu hafi ekki verið sinnt sem skyldi geta þeir leitað til Menntasviðs Kópavogsbæjar. Takist enn ekki að stöðva eineltið eða ef foreldrar telja að ekki hafi verið gengið faglega til verks við úrlausn málsins geta þeir leitað til fagráðs eineltismála grunnskólans sem skipað er af menntamálaráðherra, sjá www.gegneinelti.is .

Góð ráð til foreldra

Ef foreldra grunar að barnið þeirra hafi lent í eineltisaðstæðum er gott ráð að ræða við barnið um hvort eitthvað sé að í skólanum. Flest börn grípa þá tækifærið fegins hendi og segja allt af létta. En ef barnið vill ekki kannast við neitt, er rétt að fylgjast áfram vel með því, og hafa samband við kennara barnsins, ef  þið hafið áfram sterkan grun að um einelti geti verið að ræða. Mörg börn vilja ekki viðurkenna að þau séu lögð í einelti vegna ótta um hefndaraðgerðir. 
 
Ef barni líður illa og veigrar sér við að fara í skólann er mjög brýnt að  fá strax viðtal við kennara barnsins og ræða málin á rólegu nótunum með barninu. Þá getur barnið komið sínum sjónarmiðum á framfæri, og auðveldara verður að ráðast að vandanum. 
 

Góðar leiðbeiningar fyrir foreldra þolenda: 


 • Hlustið af þolinmæði á barnið og reynið að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er, án þess að beita löngum yfirheyrslum.
 • Hrósið barninu fyrir að hafa þor til að segja frá erfiðleikum sínum.
 • Trúið barninu ykkar og standið með því.
 • Hjálpið barninu að öðlast sjálfstraust og trú á að það geti ráðið við vandann.
 • Fylgist vel með líðan barnsins.
 • Haldið ró ykkar og gerið ekkert að óyfirveguðu máli.
 • Mikilvægt er að barnið finni að þið hafið stjórn á aðstæðum.
 • Gerið ráð fyrir tilfinningalegum viðbrögðum frá barninu.
 • Lítið á vandamálið sem eitthvað sem þarf að leysa og þið getið lært af.

Góð ráð fyrir foreldra gerenda:

 
 • Hlustið af þolinmæði á barnið og reynið að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er án þess að beita löngum yfirheyrslum.
 • Hrósið barninu fyrir að segja frá.
 • Ræðið við barnið í rólegheitum. Reiði og skammir duga skammt.
 • Skýrið út fyrir barninu að það sé ekki líðandi að særa aðra, hvort sem það er líkamlega eða andlega. Barnið þarf að skilja að maður ræðst ekki á minni máttar. 
 • Reynið að fá barnið til að setja sig í spor þolanda og ímynda sér hvernig honum líður.
 • Ræðið um hvernig barnið geti bætt fyrir hegðun sína og hvernig það geti látið þolandanum líða betur.
 • Kennið börnunum að bera virðingu fyrir öðrum, skoðunum og tilfinningum annarra og sýna umburðarlyndi.
 • Verið í góðu sambandi við kennara barnsins og fylgist með framgangi málsins.

Þrjár grundvallarreglur í eineltismálum fyrir börn að fara eftir:

 
 • Leita eftir stuðningi foreldra, kennara, starfsfólks skólans og félaga.
 • Forða sér strax úr varasömum aðstæðum.
 • Að vera ákveðin.