Eineltisáætlun Kópavogsskóla

Tilkynna grun um einelti

Skilgreining á einelti

Einelti verður þegar einstaklingur lendir reglubundið og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti, andlegu/líkamlegu, eða útilokun af hendi einstaklings eða hóps.

Einelti nær stundum yfir langt tímabil og gerir líf þolandans mjög erfitt. Ójafnvægi er í styrkleika sambandi milli gerenda og þolenda. Sá sem verður fyrir eineltinu ver sig ekki alltaf sjálfur heldur lætur það yfir sig ganga. Einnig getur rafrænt einelti átt sér stað. Er þá verið að tala um þegar níðst er á viðkomandi með smáskilaboðum og á netinu t.d. á samskiptasíðum.

Mikilvægt er að hafa í huga að einstakur atburður telst ekki einelti. Einnig er mikilvægt að gera greinarmun á einelti og samskiptavanda. Samskiptavandi getur oft leitt af sér einelti og því mikilvægt að taka samskiptavanda föstum tökum. 

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir skólans

Skólinn leggur áherslu á góð samskipti við foreldra þannig að foreldrar finni sig velkomin í skólanum.

Lögð er áhersla á að nýir nemendur hitti umsjónarkennara sinn og deildarstjóra við skólabyrjun. Einnig hittir náms- og starfsráðgjafi nýja nemendur stuttu eftir að viðkomandi hefur nám við skólann.

Skólinn starfar eftir stefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Kennsluáætlanir liggja fyrir í öllum árgöngum skólans. Samkvæmt stefnunni eru haldnir reglulegir bekkjarfundir en hver bekkur útbýr sinn bekkjarsáttmála að hausti. 

Tengsla- og samskiptakannannir eru lagðar fyrir tvisvar sinnum á ári. Náms- og starfsráðgjafi skólans hefur umsjón með þeim.

Skipulögð kennsla í samskiptum og forvörnum fer fram á öllum stigum skólans en þetta er hluti lífsleiknikennslu. Einnig leggur skólinn áherslu á reglulegt hópefli í bekkjum og á milli árganga. Sem dæmi um hópefli í skólanum öllum má nefna Fjölgreindarleikana sem haldnir eru árlega.

  • Yngsta stig skólans vinnur með vináttuverkefni Barnaheilla um bangsann Blæ og er þar um að ræða skipulagða kennslu í samskiptum. Einnig er 4. bekkur í samvinnu við 9. bekk með verkefnið Krakkar með krökkum frá KVAN.

  • Miðstig skólans vinnur með Verkfærakistu KVAN í lífsleikni en þar er verið að vinna með samskipti, jákvæð og neikvæð samskipti og leiðir til þess að búa til góðan bekkjaranda sem og jákvæða og neikvæða leiðtogafærni.

  • Unglingastig skólans vinnur með áætlun í samskiptamálum sem byggir á vinnu frá Erindi, samskiptasetri og setja kennarar upp áætlun að hausti fyrir hvert skólaár. Einnig er unnið með verkefnið Krakkar með krökkum frá KVAN í 9. bekk en þar er um að ræða samvinnuverkefni 4. og 9. bekkjar.

Ferill eineltismála

Höfum það í huga að málefni er varða einelti geta verið mjög misjöfn og því mikilvægt að skoða vel hvert einstakt mál og vinna samkvæmt því. Áætlunin er rammi sem skólinn styðst við.

Aðgerðir innan skólans

Skref 1 - Formleg tilkynning um einelti 

Hægt er að tilkynna um grun um einelti í gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu eða umsjónarkennari/foreldri/nemandi/annar aðili búinn að tilkynna á eyðublaði sem má finna hjá ritara skólans. Skólastjórnendur taka við tilkynningum.

Skref 2 - Málinu vísað til eineltisteymis

  • Eineltisteymið kemur saman og tekur umsjónarkennari viðkomandi nemenda sæti í því ásamt deildarstjórum yngra og eldra stigs og námsráðgjafa. 

  • Eineltisteymi skipar umsjónaraðila málsins sem ber ábyrgð á næstu skrefum. 

  • Tekin eru viðtöl við meintan þolanda/þolendur og meintan geranda/gerendur. 

  • Foreldrum gert viðvart um könnunnarferlið og upplýstir um næstu skref.

  • Leitað er upplýsinga hjá öðrum nemendum, kennurum, starfsmönnum, frístundaheimilinu Stjörnunni og félagsmiðstöðinni Kjarnanum.

  • Gert er ráð fyrir að eineltisteymi taki 5 skóladaga í rannsókn á málinu og vinni samkvæmt gátlista fyrir könnunarviku.

  • Eineltisteymið tilkynnir grun um einelti til nemendaverndarráðs á fyrsta fundi ráðsins eftir tilkynningu og upplýsir svo ráðið reglulega um framgang málsins.Náist ekki að leysa málið eftir neðangreindu ferli, vísar eineltisteymið málinu alfarið til nemendaverndarráðs.

Ef niðurstaða könnunar bendir ekki í átt að einelti fundar eineltisteymið með foreldrum til þess að upplýsa um niðurstöðuna og næstu skref rædd. Ef grunur er um einelti fer ferlið í skref 3.

Skref 3 - Aðgerðir

  • Þeir starfsmenn sem koma að nemendunum eru upplýstir um málið. 

  • Eineltisteymi tekur viðtöl við foreldra þolanda og gerenda. Viðtölin fara fram í sitt hvoru lagi og foreldrar upplýstir um aðgerðir. Foreldrar og eineltisteymi ræða mögulegar leiðir til lausnar. 

  • Tekin eru einstaklingsviðtöl við þolanda og geranda með viku millibili í mánuð. Umsjónaraðili málsins tekur þessi viðtöl. Foreldrar viðkomandi eru upplýstir um þessi viðtöl og geta verið viðstaddir þessi viðtöl, kjósi þeir þess. 

  • Bekkjarkennarar vinna með samskipti í árganginum. Fræðsla um einelti, umræður, bekkjarfundir, hlutverkaleikir, myndbönd o.fl. er nýtt. Nemendum eru kenndar leiðir til þess að bregðast við einelti verði þeir þess varir.

  • Stöðufundur með foreldrum þolenda og gerenda eftir 4 vikur, en þá skal þessari vinnu lokið. 

Skref 4 - Ef aðgerðir bera ekki árangur

  • Málinu vísað aftur til nemendaverndarráðs.

  • Fundað með foreldrum geranda/gerenda og meta hvort aðkomu sálfræðings skólans sé þörf.

  • Fundað með foreldrum þolanda.

  • Gerandi/gerendur eru skyldaðir til þess að vera í fylgd starfsmanns í aðstæðum þar sem einelti á sér stað.

  • Leitað eftir aðstoð frá fagráði eineltismála hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu (www.gegneinelti.is). 

Góð ráð til foreldra

Mikilvægt er að foreldrar leggi sig fram um að vera í góðum og jákvæðum samskiptum við aðra foreldra. Að sama skapi er mikilvægt að foreldrar fylgist vel með netnotkun og rafrænum samskiptum barna sinna.

Ef foreldra grunar að barnið þeirra hafi lent í eineltisaðstæðum er gott ráð að ræða við barnið um hvort eitthvað sé að í skólanum. Flest börn grípa þá tækifærið fegins hendi og segja allt af létta. En ef barnið vill ekki kannast við neitt, er rétt að fylgjast áfram vel með því, og hafa samband við kennara barnsins, ef  þið hafið áfram sterkan grun að um einelti geti verið að ræða. Mörg börn vilja ekki viðurkenna að þau séu lögð í einelti vegna ótta um hefndaraðgerðir. 

Ef barni líður illa og veigrar sér við að fara í skólann er mjög brýnt að fá strax viðtal við kennara barnsins og ræða málin á rólegu nótunum með barninu. Þá getur barnið komið sínum sjónarmiðum á framfæri, og auðveldara verður að ráðast að vandanum. 

Góðar leiðbeiningar fyrir foreldra þolenda:  

  • Hlustið af þolinmæði á barnið og reynið að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er, án þess að beita löngum yfirheyrslum.

  • Hrósið barninu fyrir að hafa þor til að segja frá erfiðleikum sínum.

  • Trúið barninu ykkar og standið með því.

  • Hjálpið barninu að öðlast sjálfstraust og trú á að það geti ráðið við vandann.

  • Fylgist vel með líðan barnsins.

  • Haldið ró ykkar og gerið ekkert að óyfirveguðu máli.

  • Mikilvægt er að barnið finni að þið hafið stjórn á aðstæðum.

  • Gerið ráð fyrir tilfinningalegum viðbrögðum frá barninu.

  • Lítið á vandamálið sem eitthvað sem þarf að leysa og þið getið lært af.

Góð ráð fyrir foreldra gerenda:

  • Hlustið af þolinmæði á barnið og reynið að fá eins sannar upplýsingar frá því og unnt er án þess að beita löngum yfirheyrslum.

  • Hrósið barninu fyrir að segja frá.

  • Ræðið við barnið í rólegheitum. Reiði og skammir duga skammt.

  • Skýrið út fyrir barninu að það sé ekki líðandi að særa aðra, hvort sem það er líkamlega eða andlega. Barnið þarf að skilja að maður ræðst ekki á minni máttar. 

  • Reynið að fá barnið til að setja sig í spor þolanda og ímynda sér hvernig honum líður.

  • Ræðið um hvernig barnið geti bætt fyrir hegðun sína og hvernig það geti látið þolandanum líða betur.

  • Kennið börnunum að bera virðingu fyrir öðrum, skoðunum og tilfinningum annarra og sýna umburðarlyndi.

  • Verið í góðu sambandi við kennara barnsins og fylgist með framgangi málsins.

Þrjár grundvallarreglur í eineltismálum fyrir börn að fara eftir:

  • Leita eftir stuðningi foreldra, kennara, starfsfólks skólans og félaga.

  • Forða sér strax úr varasömum aðstæðum.

  • Að vera ákveðin.