Fíknivarnir

Forvarnir skipa öflugan sess í skólastarfi og leitast er við að láta þær ná til allra þeirra þátta sem geta haft mótandi áhrif á líf barna og unglinga. Forvarnir gagnvart vímuefnum hafa í gegnum tíðina skipað stærstan sess í forvarnastarfi en nú þarf einnig að huga að nýrri þáttum eins og tölvufíkn og aukinni einangrun. Kennarar Kópavogsskóla fylgjast vel með nemendum og ef upp koma áhyggjur sem snúa að einhverju leyti að fíkn er reynt að koma að fræðslu sem hentar viðkomandi aldri. Uppeldisstefna skólans, Uppeldi til ábyrgðar, leggur áherslu á að byggja upp sterka sjálfstæða einstaklinga og fræðsla er lykilþáttur í forvarnastarfi skólans. Lögð er áhersla á að bregðast við áður en vandinn verður mikill og skólinn hefur til langs tíma leitað til aðila sem hafa sérfræðiþekkingu á sviði forvarna. Utanaðkomandi aðilar koma reglulega í heimsókn í Kópavogsskóla og þar má nefna Maritafræðslu, Þorgrímur Þráinsson með fræðslu um jákvæða sjálfsmynd, fræðsla um fjármál og fjármálalæsi, fræðsla frá Samtökunum 78, fræðsla frá embætti landlæknis og fræðsla sálfræðinga vegna tölvufíknar og kvíða svo helstu atriðin séu nefnd. Einnig nýtir skólinn sér einstaklinga í kennarahópnum, námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðing.

Helstu leiðir:

 • Að fræða nemendur um skaðsemi tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna og afleiðingar af neyslu þessara efna. Sömuleiðis að fræða um annars konar fíkn t.d. netfíkn.
 • Stuðla að jákvæðri sjálfsmynd og heilbrigðum lífsstíl nemenda svo þeir verði betur færir um að taka sjálfstæðar ákvarðanir og láta ekki undan félagslegum þrýstingi.
 • Leggja aukna áherslu á úrræði fyrir nemendur í áhættuhópum. Hafa samvinnu við heimilin um forvarnir.
 • Fá gestafyrirlesara í heimsókn í skólann til að ræða við nemendur í tengslum við annað forvarnastarf. V
 • era í samstarfi við Félagsmiðstöðina Kjarnann um forvarnarstarf

Námsráðgjafi starfar við Kópavogsskóla og hans hlutverk er að vera trúnaðarmaður nemenda og sá aðili sem þeir geta leitað til og rætt við um sín persónulegu mál.

 Hjúkrunarfræðingur hefur fasta viðveru í Kópavogsskóla og sinnir meðal annars forvarnarstarfi. Forvarnarefni heilsugæslunnar, 6H, er notað við þá fræðslu.

 

Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um fíkn

Ferill vímuefnamála

 1. Öll notkun tóbaks er bönnuð í og við skólann. Foreldrum er gert viðvart ef nemandi verður uppvís að reykingum eða tóbaksnotkun. Hafi kennarar eða annað starfsfólk skólans grun um að nemandi sé farinn að reykja eða nota tóbak eru foreldrar látnir vita um þann grun af umsjónarkennara, deildarstjóra eða skólastjóra.
 2. Ef sterkur grunur um neyslu áfengis eða fíkniefna nemanda vaknar er umsjónarkennara tilkynnt um málið. Jafnframt hefur skólastjóri samband við foreldra viðkomandi nemanda og segir frá rökstuddum grunsemdum og bendir foreldrum á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð.
 3. Ef staðfestar upplýsingar liggja fyrir um neyslu nemanda á áfengi eða öðrum vímuefnum skal umsjónarkennari, deildastjóri eða skólastjóri strax boða foreldra til fundar, kynna þeim málið og láta vita um framgang málsins.
 4. Málinu er vísað til nemendaverndarráðs.
 5. Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið.
 6. Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.

Ferill annarra fíknimála

 1. Ef fram kemur sterkur grunur um fíkn nemanda er umsjónarkennara tilkynnt um málið. Jafnframt hefur skólastjóri samband við foreldra viðkomandi nemanda og bendir foreldrum á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð fagaðila.
 2. Málinu er vísað til nemendaverndarráðs sem tekur ákvörðun um framhald málsins.
 3. Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið.
 4. Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls

Skólastjóri og nemendaverndarráð sjá um öll mál sem tengjast vímuefnum og fíkn innan skólans.