Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar.

Í Kópavogsskóla starfa skólaárið 2017-2018 um 70 starfsmenn, 15 karlar og 55 konur. Nokkrir  eru í mjög litlu starfshlutfalli eða í tímakennslu. Nemendur skólans eru um 360.

Í Kópavogsskóla er leitast við að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.  Markvisst er unnið að því að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að rækta sérkenni sín og jákvæð samskipti kynjanna. Skólinn leitast við að veita báðum kynjum sömu tækifæri til áhrifa og þátttöku í öllu skólastarfi. Markmið Jafnréttisáætlunar Kópavogsskóla er að stuðla að jafnri stöðu beggja kynja í skólanum og stuðla að því að jafnréttismál verði eðlilegur þáttur í skólastarfinu, bæði hvað varðar starfsfólk og nemendur.  

Taka skal tillit til jafnréttissjónarmiða í allri stefnumótunarvinnu skólans. Við verkaskiptingu, ráðningar, uppsagnir og tilfærslur í störfum skal gæta þess að mismuna ekki kynjunum sbr. starfsmannaáætlun skólans.  

Konur og karlar skulu njóta sambærilegra kjara og fríðinda. Gæta þarf þess  einnig að allir njóti sambærilegra starfsaðstæðna í skólanum. Starfsfólk skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu á vinnutíma, þar sem því verður við komið. Þannig skal starfsfólki auðveldað að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Þá skal einnig taka sérstakt tillit til kvenna  vegna þungunar, barnsburðar og umönnunar ungbarna og telst það ekki mismunun.  

Komi upp sú staða að yfirmaður sé kærður vegna áætlaðrar kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni skal skólastjórnandi í samráði við jafnréttisnefnd vísa málinu til Menntasviðs Kópavogs.

Ávallt skal hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi þegar auglýst er eftir  starfsfólki og hvatt til þess að bæði karlar og konur sæki um störf. Við ráðningu skal það kyn sem er í minnihluta í starfi því sem auglýst er eftir, að öðru jöfnu ganga fyrir, ef um jafnhæfa einstaklinga er að ræða sem uppfylla skilyrði starfs. 

Starfsmenn geta hvenær sem er komið athugasemdum á framfæri við jafnréttisnefnd skólans sem ræðir þær við skólastjóra. Í árlegum starfsmannasamtölum allra starfsmanna á að ræða um jafnréttismál innan skólans og fá fram mat starfsmanna á þeim. Við undirbúning starfsmannasamtala skal óskað eftir að starfsmenn velti stöðu jafnréttismála fyrir sér og í framhaldi af starfsmannasamtali skal fara vel yfir allar athugasemdir og lagfæra ef þörf er á.

Ábyrgð á ofantöldum þáttum er í höndum skólastjórnenda.

Jafnréttisnefnd

Guðmundur Ásmundsson skólastjóri, Sigurður Þorsteinsson kennari, Margrét Inga Bjarnadóttir kennari, Elísabet Pétursdóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Áætlun þessi styðst við Jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar. Tekur hún bæði til starfsmanna skólans og kennslu og náms í skólanum. 

Aðgerðaáætlun

Hér má nálgast jafnréttis/aðgerðaáætlun (PDF skjal) Kópvogsskóla.