Rafrænt nám og kennsla

Lögð er áhersla á möguleika rafrænnar tækni í námi og kennslu. Á yngsta stigi eru bekkjarsett af iPad spjaldtölvum til reiðu fyrir kennara og notkun þeirra hefu aukist mikið. Flestir kennaranna nota Seesaw en það er námsforrit sem gefur kennaranum kost á að einstaklingsmiða verkefni fyrir hvern nemanda og fá þau til yfirferðar með rafrænum hætti. Einnig er hægt að gefa foreldrum aðgang að verkefnum nemenda svo þeir geta fylgst með þeirri vinnu sem fer fram í skólanum.

Allir nemendur í 5.-10. bekk hafa eiginn iPad til afnota og lögð er áhersla á að nýta möguleika hans hvað varðar aðgengi að upplýsingum, rafrænt aðgengi að námsbókum og verkefnaskil til kennara í gegnum þartilgerð forrit. Í stærðfræði á unglingastigi er unnið í lotum og þar er allt námsefni og kennslumyndbönd aðgengileg frá tæki hvers og eins.

Áhersla er lögð á að auka fjölbreytileika kennsluaðferða svo allir nemendur fái þá nálgun sem hentar þeim best. Í þeim tilgangi eru ,,Menntabúðir“ fastur þáttur í starfi skólans en þar koma kennarar saman einu sinni í mánuði og kenna og kynna samkennurum sínum það sem þeir eru að vinna og þær aðferðir sem þeir nota.