Uppeldi til ábyrgðar

Í Kópavogsskóla er stuðst við agastjórnunarkerfi Uppbyggingastefnunnar. Grundvallaratriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga á jákvæðan hátt, að þau læri að stjórna sér betur og líti inn á við og skoði eigið gildismat með það markmið að fækka árekstrum. Langur tími getur liðið þar til allir fara að starfa eftir Uppeldi til ábyrgðar því nemendur þurfa í raun að alast upp í kerfinu. Því er um markmið til margra ára að ræða. Agastjórnunarstefnan er sífellt í símenntunaráætlun starfsmanna skólans þar sem breytingar á starfsmannahaldi eru alltaf einhverjar og einnig þarf sífellt að rifja upp og skerpa áherslur í notkun stefnunnar í starfinu. 

Nemendur læra:

  • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir, stunda sjálfsrannsókn
  • Að rækta og efla sinn innri áhuga
  • Að bera ábyrgð á eigin námi
  • Að læra leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun
  • Aðferðir við lausn ágreiningsefna
  • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum.(Minni freisting að taka vonbrigði sín út á öðrum eða leggja aðra í einelti)
  • Að mynda tengsl við aðra
  • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau
  • Að verða þeir sjálfir - þær manneskjur sem þeir vilja vera.
  • Að gera bekkjarsáttmála

Áherslubreytingar í samskiptum

  • Frá þvingandi samskiptum í að útrýma þvingun og ótta
  • Frá atferlismótun til sjálfstjórnar
  • Frá fyrirskipun til samvinnu
  • Frá blindri hlýðni til sjálfsaga
  • Frá áherslu á vandamál til áherslu á lausnir
  • Frá því að kennarinn leysir vandann í að nemendur leysa vandann
  • Frá undanlátssemi til ábyrgðar
  • Frá reglum til lífsgilda
  • Frá: "Hvernig getum við látið þau lúta okkar vilja?" í  "Hvernig getum við kennt þeim að sinna þörfum sínum af ábyrgð?" 

Hegðun eftir litum 

Umgengnisreglur sem notaðar eru með yngri nemendum til að vinna með óæskilega hegðun. Ávallt viljum við vera græn og væn en við lærum að ræða aðra hegðun eftir litum í stað þess að fjalla um hvað gert er námkvæmlega. Börnin segja: "Sigga var rauð í frímínútum" í stað "Sigga var að lemja Heiðu í frímínútum". Þannig náum við athyglinni frá því neikvæða og persónulega yfir í að ræða hvernig við getum breytt rauðri hegðun í græna hegðun. Kennari hjálpar nemendum að byggja upp sjálfsaga með þeim hætti.

Bekkjarsáttmálar. 

Á hverju hausti sammælist bekkurinn um gildi sem hann telur mikilvægust í samskiptum og gerir bekkjarsáttmála í framhaldi af þeirri vinnu. Allir skrifa undir sáttmálann. Hvert gildi er skoðað sérstaklega; hvað í því felst, hvernig það birtist í orðum, gerðum og tilfinningum og hver andstæða þess er. Best er að nemendur vinni eins mikið sjálfir og unnt er því ferlið er jafn mikils virði og útkoman. Samkomulag í formi sáttmála er grundvallaratriði fyrir sjálfstjórn einstaklinganna í hópnum. Áherslan er færð frá ytri reglustjórnun með beitingu tilbreytingarlítilla viðurlaga í átt að uppbyggingarstjórn með áætlunum byggðum á gildismati.