Útileikhús

Nemendur 5. bekkjar hafa til margra ára sett upp leiksýningu í skóginum við Digraneskirkju í lok skólaárs. Kópavogsskóli hefur verið í samstarfi við Eggert Kaaber leikstjóra sem hefur umsjón með verkinu. Undirbúningur hefst um áramót og þá hittir leikstjóri nemendur árgangsins og kennarana og þá eru lögð drög að skipulaginu. List- og verkgreinakennarar koma að undirbúningnum því leikmunir og búningar eru unnir í kennslustundum. Leikstjóri hittir nemendur einu sinni í viku til að byrja með en þegar nær dregur fjölgar dögum og seinustu dagana fyrir sýningu eru æfingar í skóginum við Digraneskirkju. Hefð er fyrir því að leiksýningin sé seinasta föstudag í maí eða fyrsta föstudag í júní. Aldrei þó seinna en ca einni viku fyrir skólaslit. Leiksýningin er öllum opin og foreldrum og ættingjum boðið sérstaklega. Leikritin sem hafa verið sýnd eru Hrói höttur, Lína langsokkur, Ronja ræningjadóttir og Kóngssynir og klaufabárðar. Marteinn Sigurgeirsson hefur kvikmyndað sýningarnar frá upphafi og hefur við það notið aðstoðar eldri nemenda skólans.