Lestur

Að lesa námsbók er annað en að lesa okkur til skemmtunar. Við viljum helst muna það sem við erum að lesa og við höfum ekki alltaf mjög mikinn áhuga á námsefninu! Þá er gott að styðjast við eftirfarandi þriggja þrepa aðferð:

 1. 1.     Skima

Markmið: að fá almenna hugmynd um námsefnið.

 • Byrjað er á að líta yfir textann eða kaflann sem á að lesa.
 • Skoða kaflaheiti, fyrirsagnir og millifyrirsagnir.
 • Skoða myndir, töflur og gröf og lesa texta við myndir.
 • Lesa upphaf kafla, lokaorð eða samantekt.
 • Fara yfir spurningar eða yfirlit yfir hugtök.
  • Ef það vantar spurningar er gott að búa þær sjálf/ur til t.d. með því að snúa fyrirsögnum yfir í spurningar: Upphaf og lok víkingaaldar – Hvenær hófst víkingaöld og hvenær lauk henni?

 

 1. 2.     Nákvæmnislestur

Markmið: að skilja efnið og finna svör við spurningum

 • Lesa efnið eða kaflann nákvæmlega – í litlum skömmtum.
 • Líta upp og hugsa – um hvað var ég að lesa? Gott er að endursegja aðalatriðin með eigin orðum.
 • Lesa hratt þegar við á og hægja á þegar efnið er flóknara.
 • Skrifa niður glósur á blað eða í stílabók.

 

 1. 3.     Rifja upp

Markmið: að auka líkurnar á því að muna betur það sem lesið er

 • Líttu yfir efnið eða kaflann sem þú last og rifjaðu upp helstu atriði. Skoðaðu minnispunkta eða glósur sem þú hefur skrifað.
 • Svaraðu spurningum og leystu verkefnin sem fylgja
 • Mikilvægt er að rifja fyrst upp innan sólarhrings – gleymskan er mest fyrsta sólarhringinn. Svo er gott að rifja upp reglulega þar á eftir, a.m.k. einu sinni í viku.

 


 

Ef þú átt erfitt með að einbeita þér eða skilja textann þá getur verið gott að:

 • Lesa upphátt.
 • Standa upp og ganga um á meðan verið er að lesa.
 • Glósa á meðan þú lest.
 • Taka stutt hlé – af hverju er ég að lesa þetta, hvað þarf ég að læra, hvað er mikilvægt?
 • Finna einhvern sem getur útskýrt lesefnið fyrir þér.
 • Tala við aðra um námsefnið.
 • Skrifa niður eða merkja við það sem þú skilur ekki og spyrja kennarann í næsta tíma.

 

Að auka lestrarhraða – nokkur góð ráð

 • Að ná upp góðum lestrarhraða er þjálfun. Æfðu þig eins mikið og þú getur.
 • Ef þú hefur alltaf lesið hægt getur verið gott að byrja á að æfa sig á auðveldum texta og skipa sjálfum sér að lesa hraðar.
 • Gott er að koma sér vel fyrir við skrifborð með blýant í hendi. Blýantinn notar þú til að fylgja línunni. Það dregur úr þeirri tilhneigingu að augun hvarfli til baka í línunni og hjálpar til við að halda okkur við rétta linu. Líka er hægt að nota fingur.
 • Ef þér finnst erfitt að halda þér við efnið skaltu taka þér stutta hvíld og hefjast handa á ný.
 • Með mikilli æfingu geta góðir lesarar náð þeirri færni að lesa hratt yfir þá hluta efnis sem léttvægir eru en eyða síðan meiri tíma í það sem er mikilvægt að muna.