Kennsluhættir

Kennsla í Kópavogsskóla er að hluta skipulögð sem ,,hefðbundin” bekkjarkennsla þar sem hver nemandi tilheyrir ákveðinni deild með einum umsjónarkennara. Undanfarin ár hefur stefnan verið að vinna með hvern árgang sem eina heild með aukinni teymiskennslu og auknu samstarfi kennara. Markmiðið er að auka jákvæð samskipti nemenda og fá þá til að líta á sig sem hluta af stærri heild. Kennarar í 1. og 2. bekk vinna nú sem teymi sem vinnur sameiginlega með báða árganga og ætlunin að það kerfi þróist á næstu árum. Á þemadögum er hópum blandað saman þvert á deildir og aldur til að auka fjölbreytni ásamt því að lögð er áhersla á ýmsar uppákomur og heimsóknir utanaðkomandi aðila.

Áhersla er lögð á að auka fjölbreytileika kennsluaðferða svo allir nemendur fái þá nálgun sem hentar þeim best. Í þeim tilgangi eru ,,Menntabúðir“ fastur þáttur í starfi skólans en þar koma kennarar saman einu sinni í mánuði og kenna og kynna samkennurum sínum það sem þeir eru að gera og þær aðferðir sem þeir nota.

Nokkrir nemendur 9. og 10. bekkjar stunda nám utan skólans. Þar er um að ræða skipulagt nám sem metið er til valgreina í 9. og 10. bekk og einingabært nám í framhaldsskólum, aðallega Menntaskólanum í Kópavogi og Tækniskólanum. Starfsnám í fyrirtækjum hefur einnig staðið til boða ef áhugi er fyrir því.