Lestur

Lestrarkennsla og lestrarþjálfun er eitt af grunndvallaratriðum alls skólastarfs. Kópavogsskóli hefur sett sér læsistefnu og á yngsta stigi er unnið samkvæmt hugmyndafræði Byrjendalæsis sem hefur verið þróað við Háskólann á Akureyri. Kennarar í 1.-2. bekk hafa allir farið á námskeið í þeim kennsluháttum og við skólann starfa tveir leiðtogar í Byrjendalæsi. 

Lögð er áhersla á að allir kennarar sinni lestrarkennslu og að tími sé gefinn til lestrarþjálfunar. Þrisvar á ári er lestrarhraði nemenda mældur og til þess er nýtt mælitæki frá Menntamálastofnun en það heitir Lesferill. Mælingar eru gerðar í september, janúar og maí og niðurstöður hvers barns skoðaðar og metnar. Í vissum tilvikum er boðað til fundar með foreldrum og þjálfunaráætlun gerð fyrir viðkomandi barn.

Leshraði skiptir ekki öllu máli því lesskilningur og hæfnin til að ná upplýsingum úr texta er meginmarkmið lestrarkennslunnar.