Í Kópavogi er öflugt skólastarf sem drifið er áfram af fagmennsku og nýsköpun. Starfið einkennist
af metnaði og stöðugri þróun í takt við þarfir nemenda, samfélagsþróun og í samræmi við
menntastefnu Kópavogs til 2030. Áhersla er á hæfnimiðað nám, fjölbreytta kennsluhætti og
einstaklingsmiðaða nálgun í námi. Sérstaklega er unnið að eflingu lestrarkennslu og læsis í víðum
skilningi, samþættingu náms, lýðræði, stafrænni borgaravitund og skilvirkri notkun stafrænna
lausna. Lögð hefur verið áhersla á að móta námsumhverfi sem styður vel við fjölbreyttan
nemendahóp.
Á sama tíma stendur grunnskólastarf á Íslandi frammi fyrir fjölmörgum áskorunum sem kalla á
markvissar umbætur og samræmda stefnu. Skólastarf þarf stöðugt að rýna með það að
markmiði að efla námsárangur og líðan barna og stuðla að nýbreytni og umbótum í námi.
Frá hausti 2024 hefur farið fram umfangsmikið samráðsferli innan grunnskóla Kópavogs. Á
tímabilinu 17. september til 9. október 2024 heimsótti bæjarstjóri Kópavogs alla 10 grunnskóla
bæjarins ásamt starfsfólki menntasviðs. Í heimsóknunum áttu þau samtöl við skólastjórnendur,
kennara, nemendur og annað starfsfólk, auk þess sem húsnæði og aðstæður hvers skóla voru
skoðaðar. Markmið heimsókna var að kynnast skólabrag og starfinu í hverjum skóla, greina
styrkleika og áskoranir í starfinu og virkja samráð um umbótaleiðir. Í framhaldinu fundaði
bæjarstjóri með fulltrúum foreldra í stjórnum foreldrafélaga og skólaráðum.
Alls tóku rúmlega 300 manns þátt í samráðinu og mótun tillagna að umbótum.
Til viðbótar við þau gögn sem var aflað með samtölum við hagaðila voru gögn úr lestrar- og
velferðarmælingum og öðrum úttektum og skýrslum rýnd af sérfræðingum menntasviðs
Kópavogsbæjar. Frá janúar og fram í apríl 2025 fór fram samráð og þróunarvinna með
skólastjórnendum allra grunnskóla og sérfræðingum menntasviðs á tveimur
stefnumótunarfundum, þar sem lögð voru drög að tillögum að umbótaverkefnum og áherslur
samræmdar. Í framhaldinu tók stýrihópur undir forystu bæjarstjóra – skipaður fulltrúum
bæjarstjórnar, skólastjórnenda, kennara, foreldra og starfsfólks menntasviðs – við rýni og
yfirferð á tillögum og lagði til breytingar og áherslur.
Tillögur að umbótum byggja því á víðtæku samráði, greiningu og niðurstöðum mælinga og
faglegrar rýni auk sjónarmiða kennara, skólastjórnenda, foreldra og nemenda. Þær taka
jafnframt mið af áherslum menntastefnu Kópavogs til 2030, menntastefnu stjórnvalda til 2030
og aðgerðaáætlun mennta- og barnamálaráðuneytis. Tillögurnar ná til lykilsviða skólastarfs –
námsumhverfis, kennslu, stjórnunar, samstarfs við foreldra og starfsþróunar.
Í þessu samráðsferli komu fram skýr og oftast samhljóða sjónarmið um stöðu grunnskólastarfs í
Kópavogi. Tækifæri felast í að virkja sterkt skólasamfélag sem er reiðubúið að þróast og laga sig
að breyttum aðstæðum. Helstu áskoranir snúa að því að bregðast við fjölbreytileika og stærð
nemendahópa, samræma hæfniviðmið, námsmarkmið og námsmat milli skóla, auka öryggi og
vellíðan í starfsumhverfi skólanna og fjölga faglærðum kennurum í grunnskólum Kópavogs.
Markmið tillagnanna er að skapa öflugt náms- og starfsumhverfi fyrir nemendur, kennara og
foreldra í Kópavogi. Samráðið endurspeglaði vel þær áskoranir í skólastarfi sem flest eru
sammála um að bregðast þurfi við til framtíðar og tillögurnar taka mið af. Þær byggja á
heildstæðri framtíðarsýn fyrir skólastarf í Kópavogi og leggja grunn að því að Kópavogur verði
áfram í fararbroddi þegar kemur að faglegu og árangursríku skólastarfi.
Lykiláherslur í tillögunum:
• Auka gæði kennslu með áherslu á hæfnimiðað nám, markvissa endurgjöf á vinnu
nemenda og námsumhverfi þar sem tekið er tillit til fjölbreytileika í nemendahópum.
Hæfniviðmið, námsmarkmið og námsmat verða samræmd. Fylgst verður með
námsframvindu nemenda reglulega með markvissum mælingum til að nemendur og
foreldrar fái skýra mynd af stöðu og framförum í námi.
• Innleiðing nýs námsmatskerfis MMS (matsferill MMS), felur í sér stöðu - og
framvindupróf sem nýtast bæði nemendum og kennurum til að greina námsstöðu og
framfarir, og auðvelda kennurum að bregðast við í kennslu. Með bættu námsmatskerfi
fá nemendur, foreldrar og skólar jafnframt meiri og betri upplýsingar um stöðu og
framvindu í námi.
• Tryggja samfellu í námi milli allra skólastiga og byggja upp stuðningskerfi sem mætir
þörfum fjölbreytts nemendahóps í anda inngildingar og jafnræðis.
• Styrkja kennara og skólastjórnendur með fjölgun menntaðra kennara, öflugri
símenntun, faglegri leiðsögn og aðgengi að gögnum sem styðja við kennslu,
leiðtogahlutverk og umbótastarf.
• Styrkja samstarf heimila og skóla með sameiginlegum sáttmála og reglulegu samtali um
námslega stöðu, líðan og velferð barna sem byggir á trausti og gagnkvæmri ábyrgð.
• Byggja upp öruggt og hvetjandi starfsumhverfi sem styður við vellíðan og skapar
forsendur fyrir faglega samvinnu og stöðuga þróun skólastarfs.
Umbótaverkefni
Tillögur að umbótaverkefnum eru flokkaðar í þrjú meginsvið sem endurspegla lykiláherslur í
skólastarfi í samræmi við menntastefnu Kópavogs. Þær byggja á samþættum markmiðum um
námsárangur, vellíðan og fagmennsku. Hver flokkur felur í sér fjölbreytt verkefni sem vinna
saman að því að styðja við skapandi, inngildandi og faglegt skólastarf þar sem allir nemendur fá
tækifæri til að ná árangri á eigin forsendum.
1. Námsumhverfi og kennsla. Verkefni í þessum flokki beinast að þróun kennsluhátta,
námsmats og mælinga í skólastarfi, auk eflingar grunnfærni og aðgengilegs, sveigjanlegs
námsumhverfis. Lögð er áhersla á að skapa forsendur fyrir hæfnimiðað og skapandi nám
sem styður við virkni, áhuga og árangur allra nemenda.
2. Velferð og foreldrasamstarf. Lögð er áhersla á samfellu í skólagöngu barna, inngildandi
skólasamfélag, öryggi, góð samskipti og stuðning foreldra við nám barna sinna. Verkefnin
miða að því að efla tengsl, traust og sameiginlega ábyrgð á velferð og farsæld barna.
3. Starfsumhverfi og forysta. Verkefni hér miða að því að styrkja fagmennsku og starfsþróun
kennara og stjórnenda, styðja við leiðtogahlutverk skólastjórnenda og skapa heilbrigt,
hvetjandi og öruggt starfsumhverfi. Markmiðið er að byggja upp öfluga starfsmenningu
sem laðar að og heldur í hæft fagfólk og styður við gæði og þróun skólastarfs til framtíðar.
Niðurstöður samráðs eru heildstæðar tillögur sem byggja á reynslu og innsýn skólasamfélagsins
í Kópavogi. Þær miða að því að efla gæði skólastarfs, og skapa náms- og starfsumhverfi til
hagsbóta fyrir nemendur, kennara og foreldra í Kópavogi.