Niðurstöður ytra mats Menntamálastofnunar

Síðastliðið haust framkvæmdi Menntamálastofnun lögbundið ytra mat á Kópavogsskóla en slíkar úttektir eru gerðar reglulega í öllum leik- og grunnskólum. Ítarlegar upplýsingar um ytra mat og markmið þess er að finna á vef stofnunarinnar en meginmarkmiðið er að rýna til gagns og benda skólum á þá þætti þar sem tækifæri eru til umbóta. Skýrsla Menntamálastofnunar barst skólanum í nóvember og þá þurfti skólinn að skila inn umbótaáætlun sem er hluti af skýrslunni. Hvorutveggja hefur nú verið birt á vef Kópavogsskóla og hægt að nálgast hér. Á hverju ári hefur skólaráð Kópavogsskóla boðað til opins fundar um málefni skólans og ákveðið hefur verið að kynna og ræða skýrsluna á opnum fundi í mars. Skólaráð boðar því til opins fundar í sal skólans föstudaginn 15. mars kl. 08:00-09:00 þar sem skýrslan verður kynnt og hún rædd.