Teymiskennsla

Í Kópavogsskóla er verið að innleiða teymiskennslu kennara í öllum árgöngum. Innleiðingin tekur tíma og skólasamfélagið getur upplifað teymiskennslu á mismunandi hátt sérstaklega meðan á innleiðingu stendur, enda er um margþætta samvinnu að ræða. Yngsta- og miðstigið hefur verið að þróa teymiskennslu undanfarin ár og nú mun unglingastigið bætast í hópinn.

Hvað er teymiskennsla?

Hefðbundin teymiskennsla er þegar kennarar árgangsins deila með sér kennslu allra nemenda. Í hefðbundinni teymiskennslu bera kennararnir jafna ábyrgð á öllum nemendum og eru jafnvirkir í kennslustundum. Aðferðir og skipulag teymiskennslu getur verið mismunandi eftir teymum kennara og þeir misþjálfaðir eða vanir slíku skipulagi. Í Kópavogsskóla er engin ein aðferð eða eitt skipulag sem gildir yfir öll teymi, heldur er það mótað af hverju teymi.

Kostir teymiskennslu.
Kostir teymiskennslu eru margvíslegir. Má þar nefna sveigjanleika og fjölbreytni í verkefnum nemenda, möguleika á smærri hópum og þannig auðveldara að mæta ólíkum þörfum nemenda, fleiri kennarar koma að nemendahópnum og viðbrögð við aðstæðum sem upp koma verða skilvirkari. Félags- tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann þar sem hann tengist fleiri kennurum. Nemandinn getur leitað til fleiri en eins aðila varðandi ráðleggingar og aðstoðar og venst því fyrirkomulagi

Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna, þeir verða öruggari þó einn kennara vanti í teymið. Félagahópurinn verður fjölbreyttari og fjölmennari og eykur líkur á félagatengsl og samheldni innan nemendahópsins. 

Í víðfeðmri rannsókn sem gerð var á starfsháttum grunnskóla á Íslandi segir ritstjóri hennar:

„Skólar sem hafa svo­kallaða teymis­kennslu hafa komið bet­ur út úr rann­sókn­inni. En teymis­kennsla er það kallað þegar tveir eða þrír kenn­ar­ar eru sam­tím­is inni í stofu með stór­um hópi nem­enda og skipta kennslu­stund­inni á milli sín. Í skól­um þar sem teymis­kennsla var við lýði var meiri ein­stak­lings­miðun í kennslu­hátt­um en í öðrum skól­um, sam­vinnu­nám al­geng­ara, þró­un­ar­starf um­fangs­meira og starfs­ánægja meiri.“

Gerður G. Óskarsdóttir í viðtali við Morgunblaðið vegna bókarinnar Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar, 2014)

Nánar um teymiskennslu má m.a. finna á Netlu - Veftímariti um uppeldi og menntun.